Hvernig og hvenær upplýsi ég mitt barn?


Hugsanir og hugmyndir barns um heilsu, sjúkdóma og mannslíkamann eru tengdar þroska þess og aldri. Hræðsla barnsins við hluti sem tengjast sjúkrahúsinu helst í hendur við þroska þess. Auk þess hefur fyrri reynsla barnsins af sjúkrahúsi, hugmyndir foreldra og reynsla ásamt menningarsýn áhrif á upplifun barnsins.

Fái barnið tíma til að undirbúa sig fyrir sjúkrahússvistina getur það tekist betur á við aðstæðurnar en án undirbúnings. Með því að upplýsa barnið getur maður minnkað þá streitu sem barnið verður fyrir og aukið á öryggistilfinningu þess.

Þörf barnsins á upplýsingum er breytileg eftir aldri. Hreinskilni er mikilvæg gagnvart barninu og upplýsingar eiga að vera settar fram á máli sem barnið skilur. Það er einnig miklivægt að barnið geti tekið rétt á móti upplýsingum. Það magn upplýsinga sem barnið fær þarf að vera hæfilegt til þess að þær komist til skila og einnig verður að sjá til þess að þær séu gefnar við heppilegar aðstæður. Barnið er mest móttækilegt fyrir slíkar upplýsingar þegar það er óþreytt, rólegt og afslappað eða þegar það sýnir áhuga. Mikilvægt er að maður taki mark á tilfinningum barnsins og hlusti á og svari spurningum þess um það sem koma skal.

Barn með fyrri reynslu af sjúkrahússvist þarf einnig á upplýsingum og hughreystingu að halda. Fyrri reynsla getur valdið meiri ótta hjá barni en barn sem er að leggjast inn í fyrsta sinn. Þess vegna þarf að undirbúa öll börn vel fyrir innlögn.

Það er mjög mikilvægt að barninu séu veittar einstaklingshæfðar/bundnar upplýsingar og að tekið sé tillit til aldurs og þroska barnsins. Sá sem þekkir barnið best hefur betra tækifæri en aðrir til að gera slíkt. Í eftirfarandi texta má finna góð ráð um hvernig og hvenær best er að veita börnum upplýsingar sem eru á mismunandi aldri. Athugið að þetta er einungis ráðleggingar til ykkar.

Skýrið út fyrir barninu að enga spurningar um það sem koma skal eru rangar eða vitlausar. Ef þið sem foreldrar getið ekki svara þeim spurningum sem barnið hefur þá er gott ráð að láta barnið teikna eða skrifa niður sýnar hugleiðingar og koma með þær til sjúkrahússins þegar barnið leggst inn.

Þegar barn er undirbúið er mjög mikilvægt að hafa í huga hvenær maður veitir barninu upplýsingar. Því yngra sem barnið er þeim mun styttra þarf tímabilið að vera á milli upplýsinga sem barnið fær og síðan meðferðarinnar sjálfrar. Best er að veita barni upplýsingar í smá skömmtum þar sem að börn geta ekki haldið einbeitingu sinni lengi og eiga auðvelt með að gleyma.

Börn fram að þriggja ára aldri

Það er mjög líklegt að þú, sem foreldri barns sem þarf að fara í svæfingu, verðir fyrir mesta álaginu og upplifir mestu streituna. Þínar tilfinningar eru mjög eðlilegar en gott er að vita að ungabörn (fram til tveggja mánaða aldurs) eiga mjög auðvelt með að vera aðskilin frá foreldrum sínum og finna öryggi hjá þeim sem annast það.

Oft er talað um smábörn sem "venju" manneskjur þar sem að allar endurtekningar, venjur og kunnuglegir hlutir veita öryggiskennd. Frá átta mánaða aldri fram að tveggja ára geta mörg börn gengið í gegnum tímabil þar sem þau eru mjög hrædd við ókunnugar manneskjur. Sem foreldri getur þú veitt barni þínu öryggi með því að vera til staðar og viðhalda ykkar venjum.

Börn undir þriggja ára aldri hafa ekki þroskað tímaskyn og eiga því ekki að fá upplýsingar of snemma. Barn sem er byrjað að tala getur tekið á móti upplýsingum daginn áður eða sama dag og fyrirhuguð aðgerð/rannsókn á sér stað.

Leikskólabörn á aldrinum þriggja til sex ára

Forskólabörn hafa mjög ríkt hugmyndaflug og þau lifa í heimi sem er fullur af ímyndunum. Í þeirra hugarheimi tengjast hlutir hver öðrum og öllu ægir saman. Oft rugla þau saman orsök og afleiðingu og greina ekki þar á milli. Það getur leitt til þess að börnin hafa rangar hugmyndir um sjúkdóma. Þau geta ekki heldur skilið á milli innri og ytri veruleika. Þess vegna túlkar barn með verki þá sem utanaðkomandi.

Upplýsingar sem maður veitir börnum á forskólaaldri eiga að vera stuttar og einfaldar. Á þessum aldri er læra börn í gegnum leikinn og því við hæfi að nota leikinn sem samskiptaaðferð. Þau eiga oftar auðveldar með að segja frá tilfinningum dúkku en þeirra eigin tilfinningum.

Forskólabörn hafa takmarkað tímaskyn. Því er best að barnið fái upplýsingarnar smám saman á nokkrum dögum en nákvæmari upplýsingar fái barnið síðan einum til tveimur dögum fyrir meðferðina/aðgerðina sjálfa.

Börnin hafa vissan skilning á því sem finns inni í líkamanum. Þau trúa því að allir hlutar líkamans séu viðkvæmir og eru mjög hrædd við að meiða sig. Það er því mjög mikilvægt að barninu sé sagt frá því hvaða líkamshluti fær meðhöndlun og benda á þá hluta sem ekkert á að gera við. Börn á þessum aldri finna oft og auðveldlega fyrir sektartilfinningu og því er mikilvægt að þeim sé sagt frá því að þau eigi enga sök á sjúkdómnum eða ástandi sínu. Hræðsla barna við hið óþekkta eins og drauga, tröll og grímuklætt fólk er mjög mikil allt fram að skólaaldri. Sum börn geta því orðið mjög hrædd þegar þau hitta starfsfólk svæfingardeildarinnar sem er með húfu eða munnhlíf.

Börn 6-12 ára

Börn á skólaaldri eru farin að gera greinarmun á ímyndun og veruleika. Mannslíkaminn skiptist niður í búk, hendur, fætur og svo það sem finnst innvortis. Börnin geta skilið á milli byggingar og starfsemi í líkamanum. Á þessum aldri vita börn að maður getur orðið veikur vegna einhvers sem á sér stað inn í líkamanum, ekki bara vegna ytri skaða. Nú skilur barnið að sjúkdómur er ekki refsing eða eitthvað undarlegt fyrirbæri heldur atburðarás sem getur orsakast af t.d. bakteríum eða vírusum. Hið frjóa ímyndunarafl barna getur þó ávallt skotið upp kollinum upp að unglingsárunum ef barnið er undir álagi.

Börnin eru mun meðvitaðri um sinn líkama en áður. Þau geta upplifað meðferð sem eitthvað sem kemur til með að skemma líkamann eða að þau eru hrædd við að líkami þeirra breytist. Það er því mikilvægt að leggja áherslu á hvaða hluti líkamans verður meðhöndlaður og hvaða hlutar ekkert verður gert við.

Börn á þessum aldri geta verið mjög hrædd við öll tæki og tól sem þau sjá inn á skurðstofunni. Það er einnig á þessum aldri sem börn byrja að vera hrædd við dauðann. Þau tengja oft saman svefn og dauða og því ekki óalgengt að börn séu hrædd við að vakna ekki aftur eftir aðgerðina.

Börn í þessum aldurshópi geta tjáð tilfinningar. Þau skilja orsök og afleiðingu og átta sig því á ástæðu og afleiðingum rannsóknar/meðferðar. Þessi aldurshópur er mun áhugasamari um það sem kemur til með að gerast í samanburði við yngri börn. Því er mikilvægt að svara spurningum barnsins og veita upplýsingar í samræmi við þær. Börnum á þessum aldri finnst leikur með dúkkur barnalegur en þær er þó hægt að nota fyrir sýnikennslu. Hinsvegar geta teikningar verið góð leið fyrir barnið til að tjá hugleiðingar sínar og tilfinningar. Best er að veita upplýsingar viku áður en meðferð á sér stað.

Unglingar

Unglingsárin er mjög viðkvæmt og viðburðaríkt tímabil í lífi hvers einstaklings. Þau einkennast af miklum andlegum og líkamlegum breytingum. Það er mjög algengt að unglingurinn sé hræddur við að vera öðruvísi, að líkami hans þroskist á óeðlilegan hátt eða að útlitið sé ekki nógu gott. Unglingurinn er mjög upptekinn af því að hafa stjórn á líkama sínum. Því getur unglingnum þótt mjög erfitt að þurfa að gangast undir aðgerð eða að fá meðferð við sjúkdómi.

Unglingar hafa tilhneigingu til að sjá sjálfa sig sem miðpunkt alls. Þeir trúa því að enginn hafi upplifað það sama eða gengið í gegnum það sama og þeir. Unglingsárin eru tímabil þar sem sjálfstæðisbaráttan er í hámarki og viljinn til að fá að stjórna sér sjálfur er allsráðandi. Unglingurinn hefur mikla þörf fyrir að vera í einrúmi og vill að aðrir virði þörf hans fyrir að vera í friði. Unglingurinn er oft í uppreisn við foreldra sína. Að verða meira háður foreldrum sínum, sem oft er eðlileg afleiðing af sjúkdómi, getur því reynst unglingnum mjög erfitt.

Þegar svæfing er annars vegar getur unglingurinn verið mjög hræddur við það að vakna þegar aðgerðin er hálfnuð eða að vakna alls ekki við lok aðgerðar. Aðrir eru hræddir við að verða ringlaðir, missa stjórnina og segja eitthvað óviðeigandi eða að geta ekki haldið þvagi og hægðum. Unglingurinn vill að litið sé á sig sem næstum því fullorðna manneskju. Hann vill einnig að hann fái upplýsingar og við sig sé talað eins og hann sé næstum fullorðinn. Oftast er hann nógu vel upplýstur til að skilja hvernig líffæri og líffærakerfi virka. Unglingurinn er fullfær um að hugsa afstætt, draga ályktanir og átta sig á afleiðingum. Þess vegna nægja honum ekki upplýsingar um það sem kemur til með gerast við ákveðna meðferð/rannsókn heldur vill hann fá upplýsingar um allt ferlið. Unglingurinn vill fá nákvæmar útskýringar á því hvers vegna ákveðnar rannsóknir/meðferðir eru gerðar og hvaða áhrif þær geti haft. Mikilvægt er að hvetja unglinginn til að spyrja spurninga og að gera hann að virkum þáttakanda í allri umræðu og ákvarðanatöku. Best er að veita unglingnum upplýsingar með mjög góðum fyrirvara til þess að hann fái tíma til að átta sig hlutunum. Leggðu áherslu á það við þinn ungling að hann hafi möguleika á að skrifa niður spurningar og hugleiðingar til að taka með sér á sjúkrahúsið.

//Search

twitter icon

Astrid Lindgren Children´s Hospital | Karolinska University Hospital 171 76 Stockholm


© Karolinska University Hospital

mail
Logotype